Leiga á sal í Hörpunni er um 100.000 krónur fyrir hver 200 sæti og leigan á Eldborg því tæpar 900 þúsund krónur.

Steinunn Birna Ragnarsdóttir, tónlistarstjóri Hörpunnar, segir þetta verð vera svipað og gengur og gerist í öðrum tónlistarsölum. Hún segir viðbrögð við verðinu almennt hafa verið góð og telur verðið sanngjarnt þar sem ýmis þjónusta er innifalin í leiguverðinu, svo sem ýmis aðbúnaður, starfsfólk og miðasala. Steinunn segir ákveðna þumalputtareglu gilda við tónleikahald sem felst í því að ef leiguverð fer ekki mikið yfir fimmtung af tekjumöguleikum tónleikanna er leiguverðið sanngjarnt og Harpan haldi sig á því róli.

Til samanburðar er Laugardalshöllin föl fyrir tæpar tvær milljónir þar sem komast fyrir um 3.000 manns á tónleika. Þá á eftir að gera ráð fyrir kostnaði við hljóðkerfi, lýsingu og annað sem tengist tónleikahaldinu.

Nánar er fjallað um leigu á sölum Hörpunnar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir tölublöð í slánni hér að ofan.