Íslendingur leigir flugvél til að ná landsleik við England í Nice í Frakklandi á mánudag.

Er að ná að fylla vélina

Grétar Sigfinnur Sigurðarsson setti inn færslu í gærkvöldi á facebook um að hann væri búinn að tryggja flugvél fyrir 180 manna hóp til Nice í Frakklandi. Um væri að ræða dagsferð þar sem farið væri snemma um morguninn og heim aftur um kvöldið eftir leikinn. En jafnframt segir hann að hann þurfi að fylla vélina til þess að geta tekið hana og en þá kosti sætið 129.900 krónur á mann.

Grétar segir viðtökurnar frábærar. „Þegar ég setti færsluna inn í gærkvöldi komu einhverjar 5 til 6 bókanir, en á klukkutíma í morgun er ég kominn með um 100 manns,“ sagði Grétar í samtali við Viðskiptablaðið. Biður hann þá sem vilja vera með að senda sér skilaboð eða póst á [email protected] sem fyrst.

Klárað strax á morgun

Grétar segist ætla að bíða til klukkan 12 í dag og þá láta alla sem verða búnir að bóka vita að þetta sé að ganga eftir og þeir þurfi þá að tryggja sér miða. Ætlar hann að klára undirbúning strax á morgun.

Flugvélin verður leiguflugvél á vegum Luxair frá Luxemborg og er þetta gert í gegnum norska ferðaskrifstofu. Grétar er mikill KR-ingur og fékk hann hugmyndina fyrst fyrir nokkrum árum þegar stefndi í mikilvægan leik KR erlendis, en þó ekki hafi orðið úr því að sá leikur skipti jafnmiklu máli og upphaflega stóð til þá var hann þannig kominn með nauðsynleg sambönd sem til þurfti til að láta þetta verða að veruleika. Byrjaði hann að hafa samband við þessa aðila strax á mánudaginn síðasta.