Starfsfólk á Höfðatorgi mun von bráðar geta leigt sér bíl til afnota í klukkutíma í senn, en Avis bílaleiga hefur í samstarfi við Höfðatorg hrint úr vör nýjung á bílaleigumarkaði hér á landi. Fyrirbærið heitir Snattbílar, en um er að ræða bílaleigu þar sem bílarnir eru geymdir í námunda við stóra vinnustaði þar sem starfsfólk getur leigt þá til skammtímaafnota.

„Þetta er hugmynd sem hefur gefist vel erlendis en er verið að bjóða í fyrsta skipti á Íslandi,“ segir Ingigerður Einarsdóttir, markaðsstjóri Avis. Starfsfólk Höfðatorgs mun geta pantað bíl á netinu, eða í gegnum app í símanum, auk þess sem bílarnir eru „opnaðir“ og þeim „lokað“ í gegnum sama app. Til þess að geta nýtt sér þjónustuna þarf að skrá sig í áskrift hjá Snattbílum, auk þess sem greitt er tímagjald á meðan bíll er í notkun.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .