Kórónuveiran ( COVID -19) greindist hér á landi í gær og í morgun var greint frá því að 49 manns hefðu verið sett í sóttkví. Allt þetta fólk er í sóttkví heima hjá sér.

Í hádeginu í dag var greint frá því að Sjúkratryggingar Íslands væru búnar taka Fosshótel Lind við Rauðarárstíg á leigu að beiðni heilbrigðisyfirvalda. Á að nýta hótelið sem sóttkví fyrir ferðamenn sem hafa smitast af kórónuveirunni, sem og aðra sem ekki geta verið heima hjá sér í sóttkví. Vísir greindi fyrst frá.

Hótelkeðjan Íslandshótel reka hótelið við Rauðarárstíg. Einhverjir gestir voru á hótelinu en Íslandshótel hafa komið þeim fyrir á öðrum hótelum í eigu keðjunnar. Á Fosshótel Lind eru 78 herbergi.