Á síðustu tólf mánuðum hefur þeim íslendingum sem búa í leiguhúsnæði fækkað um 3,5%, en á sama tíma hefur þeim fjölgað um 2% sem búa í foreldrahúsum að því er ný könnun MMR greinir frá.

Þannig sögðust 18,3% búa í leiguhúsnæði nú samanborið við 21,8% árið 2016 og 10,0% bjuggu í foreldrahúsum samanborið við 8,1% árið 2016. Þá sögðust 69,9% búa í eigin húsnæði sem er aukning um 1 prósentustig frá síðustu mælingu MMR.

Ef þróun yfir tíma er skoðuð má sjá að þeim sem bjuggu í eigin húsnæði hefur fækkað um tæp 2 prósentustig frá því að mælingar hófust árið 2013. Hlutfall þeira sem bjuggu í foreldrahúsum mældist 9,1% í september 2013 en mældist 10,0% í september 2017.

Fjölgun gengin til baka

Sú fjölgun sem varð í fjölda fólks sem kvaðst búa í leiguhúsnæði síðastliðin tvö ár virðist nú að mestu gengin til baka og segist nú svipaður fjöldi búa í leiguhúsnæði og var árið 2013. Greinileg fækkun hefur átt sér stað í fjölda þeirra leigjenda sem segist búa við mjög öruggan leigusamning. Á móti hefur þeim fjölgað sem segist búa við frekar örugga leigu. Niðurstöðurnar benda því til þess að leigjendur búi við minna öryggi en áður.

Af þeim sem sögðust búa í leiguhúsnæði töldu 81% að húsnæðið sem þau bjuggu í vera öruggt, sem nemur um fimm prósentustiga lækkun frá september 2013 þegar hlutfall þeirra sem töldu húsnæði sitt vera öruggt mældist um 86%. Hlutfall þeirra sem töldu líklegt að þeir myndu missa húsnæði sitt mældist 19%, þar af 10% sem töldu það mjög líklegt, á móti 9% sem töldu frekar líklegt að þeir misstu húsnæðið.