*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 24. september 2019 12:15

Leiguverð hækkað um 3,7%

Hægst hefur á þróun íbúðaverðs og er íbúða- og leiguverð nú að hækka með sama hraða.

Ritstjórn
Fermetraverð leigu er hæst í vesturhluta Reykjavíkur.
Haraldur Guðjónsson

Hægst hefur á hækkun íbúðaverðs og eru nú íbúða- og leiguverð að hækka með sama hraða. Leiguverð hefur hækkað um 3,7% á síðustu 12 mánuðum en kaupverð fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu um 3,6% á sama tíma. Frá þessu greinir hagfræðideild Landsbankans.

Ef þinglýstir samningar eru bornir saman í ágúst kemur í ljós að fermetraverð tveggja og þriggja herbergja íbúða sé hæst í vesturhluta Reykjavíkur. Þar leigist tveggja herbergja íbúð að meðaltali á 3.272 kr. á hvern fermetra og þriggja herbergja íbúð á 2.913 kr. á hvern fermetra. Lægsta fermetraverð tveggja herbergja íbúða er hins vegar á Akureyri, 2.512 kr., og lægsta verð þriggja herbergja íbúða er á Suðurnesjunum, 1.754 kr. að meðaltali.

Á sama tíma hækkuðu tveggja herbergja íbúðir á Suðurnesjunum mest í verði á milli ára eða um 25%. Svipuð breyting varð á leiguverði á Suðurlandi sem hækkaði um 24% milli ára. Á höfuðborgarsvæðinu varð hins vegar minni hækkun á verði tveggja herbergja íbúða eða á bilinu 1-7%, nema í Breiðholti þar sem leiguverð lækkaði.

Vísbendingar eru um að framboð leiguhúsnæðis aukist á næstu misserum. Stjórnvöld hafa lagt áherslu á að byggja upp kerfi leiguíbúða fyrir tekju- og eignalága með úthlutun stofnframlaga. Til að mynda lögðu stjórnvöld fram 8,5 milljarða króna til kaupa eða uppbyggingar á tæplega 1.600 leiguíbúðum.