Landspítali greiddi 102.073.268 krónur fyrir notkun leigubifreiða á seinasta ári. Þetta kemur fram í sundurliðuðum ríkisreikningi á rikisreikningur.is . „Við erum með 4.700 starfsemenn svo að það þarf að meta tölur um Landspítalann út frá því umfangi," segir Benedikt Olgeirsson, aðstoðarforstjóri Landspítalans.

Aðspurður hvort hægt væri að ná fram hagræðingu á kostnaðarliðnum segir Benedikt: „Þetta er einn af þeim liðum sem hefur verið grandskoðaður, Við erum með mjög hagstæða samninga við leigubílafyrirtæki," segir Benedikt. Helsta skýringin á kostnaðinum sé hversu dreifð starfsemi Landspítalans er á höfuðborgarsvæðinu. „Við erum á 17 stöðum í 100 húsum. Við gætum lækkað þessar tölu verulega ef við gætum komið okkur í sameiginlegt húsnæði á Hringbraut," segir Benedikt.

Leigubifreiðar stór kostnaðarliður

Samanlagður kostnaður allra stofnana ríkisins vegna notkunar leigubifreiða voru 172.475.802 krónur.

Embætti forseta Íslands reiddi af hendi 1.709.309 krónur fyrir leigubifreiðar og Alþingi 1.179.854 krónur. Sendiráð Íslands greiddu kr. 3.552.650 krónur fyrir slíka þjónustu og Háskóli Íslands greiddi 2.164.190 krónur. Þá lét þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta 1.382.749 krónur rakna af hendi fyrir leigubifreiðar.