Fjörutíu og fimm leigubílafyrirtæki, sem öll hafa höfuðstöðvar sínar í Philadelphia-borg í Bandaríkjunum hafa höfðað mál gegn fyrirtækinu sem gefur út forritið Uber.

Uber er snjallsímaforrit sem í raun býður upp á leigubílaþjónustu í samkeppni við hefðbundnar leigubílastöðvar. Bílaeigendur geta skráð sig sem bílstjóra hjá fyrirtækinu, og setji snjallsímaeigendur upp Uber-appið geta þeir fundið næsta bílstjóra og sýnir appið hversu langt er í hann. Greiðsla fer svo fram í gegnum appið.

Í frétt á vefsíðunni BidnessETC segir að orðalag í stefnu leigubílafyrirtækjanna sé mjög harkalegt og að Uber sé í raun líkt við skipulagða glæpastarfsemi sem heyri undir RICO löggjöfina, sem notuð hefur verið gegn ítölsku mafíunni og öðrum skipulögðum glæpahópum. Leigubílafyrirtækin segja að vegna samkeppni frá Uber sé virði starfsleyfa leigubílstjóra að hrynja, en þau kosta nú um hálfa milljón dala.

Vilja leigubílafyrirtækin fá bætur vegna tapaðra viðskipta og vilja að Uber verði bannað að starfa á Philadelphia svæðinu í framtíðinni.