Bandaríska fyrirtækið Cargo, sem stofnað var árið 2016, hefur komið með athyglisverða nýjung á markað. Fyrirtækið framleiðir sjálfsala sem settir eru upp í bílum sem bjóða upp á leigubílaþjónustu. Í þessum sjálfsölum hafa farþegar aðgengi að drykkjum, snakki og snyrtivörum gegn gjaldi.

Cargo greindi frá því í gær frá samstarfi við Grab, sem er stór leigubílaþjónustuaðili í suðaustur Asíu. Með þessu samstarfi munu sjálfsalar Cargo vera aðgengilegir í bílum á vegum Grab í Singapore. Til að byrja með munu þessir sjálfsalar vera aðgengilegir í 1000 bílum Grab í Singapore. Stefnt er á að sjálfsalaþjónustan verði einnig í boði í öðrum löndum á svæðinu síðar meir.

Farþegar geta nálgast vöruúrval sjálfsalans í gegnum sérstakt snjallsímaforrit. Þeir panta svo þær vörur sem þeir vilja í gegnum forritið og greiða fyrir vörurnar samhliða fargjaldinu. Þetta kemur fram á vef CNN .