*

laugardagur, 15. maí 2021
Innlent 16. desember 2004 13:37

Leiguflug Katla DMI gekk vel þrátt fyrir aukna samkeppni

Ritstjórn

Leiguflug á vegum þýska ferðaheildsölufyrirtækisins Troll Tours og íslensku ferðaskrifstofunnar Katla DMI á milli Íslands og Þýskalands og Austurríkis gekk vel á þessu ári en ferðirnar voru farnar í samstarfi við ferðaskrifstofurnar Thomas Cook og Neckermann. Fjöldi farþega á vegum félaganna var reyndar hinn sami í ár og í fyrra en samkeppnin var mun meiri. Sætaframboð til Íslands á þýska markaðnum jókst mjög yfir sumarmánuðina en heildarfjöldi farþega á þessari leið jókst ekki nema um 4,5%.

Bjarnheiður Hallsdóttir, framkvæmdastjóri Katla DMI, segir að árangur félaganna sé viðunandi í tilkynningu frá félaginu. "Við erum ánægð með að halda farþegafjölda okkar milli ára, ekki síst þegar miðað er við mikla aukningu í framboði flugsæta hjá keppinautum okkar og frekar erfitt efnahagsástand í Þýskalandi á þessu ári.?

Flogið var frá München, Berlín, Frankfurt og Hamborg í Þýskalandi og Vínarborg í Austurríki. Flugið frá Frankfurt var í samstarfi við Icelandair en þýsku leiguflugfélögin Condor og Hamburg International Airways flugu frá hinum borgunum. Á jaðartímanum, í maí og september, var boðið upp á tengiflug frá öllum borgunum í gegnum Berlín og Frankfurt.

Katla DMI sér um alla þjónustu við gesti Troll Tours og Neckermann á Íslandi. Gestum sem keyptu þjónustu umfram flug hjá Katla DMI fjölgaði um 10% en á móti kemur að meðaltekjur af hverjum gesti lækkuðu þegar miðað er við árið 2003. Af rúmlega 8.500 gestum sem Katla DMI þjónaði á þessu ári fóru 4.102 í hótelhringferðir og 4430 í skipulagðar fyrirframbókaðar einstaklingsferðir.

Áætlanir Katla DMI fyrir árið 2005 liggja fyrir. Gert er ráð fyrir áframhaldandi samvinnu við samstarfsaðila félagsins og flogið verður frá sömu borgum á tímabilinu frá maí til september.