Fjöldi fólks er við það að missa leiguhúsnæði sitt í Hveragerði og verður að leita annað. Á sama tíma eru nokkrar íbúðir í eigu Íbúðalánasjóðs í bænum tómar, þar á meðal átta íbúða blokk við aðalgötuna, að sögn Aldísar Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra Hveragerðisbæjar. Hún segist í samtali við Fréttablaðið ekki muna eftir öðru eins ástandi og bráðvanti leiguhúsnæði.

Aldís segir að bæjarstjórnar fleiri bæjarfélaga finni sömuleiðis fyrir því að ásókn sé sífellt að aukast eftir húsnæði og radíusinn að færast út fyrir borgarmörkina.

Í Fréttablaðinu segir að lóðir rokseljist í Hveragerði. Á fimmtudag verði úthlutað tveimur raðhúsalóðum og þá verða allar slíkar lóðir uppseldar hjá sveitarfélaginu. Þar er gert ráð fyrir 26 íbúðum. Í Hveragerði búa nú rúmlega 2.300 íbúar sem er um 400 fleiri en fyrir tíu árum.