Hafist verður handa við að byggja fyrstu íbúðir Bjargs íbúðafélags fyrir fólk í húsnæðisvanda á næstu mánuðum. Bjarg hyggst reisa yfir 300 hagkvæmar íbúðir til langtímaleigu og er miðað við að greiðslubyrði leigu fari ekki yfir 25% af heildartekjum leigjenda að teknu tilliti til húsnæðisbóta. Byrjað verður að taka við umsóknum í kringum áramótin.

Íbúðalánasjóður hefur veitt Bjargi stofnframlög vegna fjögurra slíkra verkefna í Reykjavík og Hafnarfirði, en stofnframlög eru veitt til aðila sem hyggjast reka hagkvæmt og öruggt leiguhúsnæði fyrir fólk í lægri tekjuhópum. Nú er ljóst að vegna breyttrar hönnunar mun íbúðum í þessum fjórum verkefnum fjölga um 60, eða úr um það bil 260 í 320. Heildarkostnaður Bjargs vegna þessara íbúða er áætlaður um 7-8 milljarðar króna.

Stofnframlög Íbúðalánasjóðs vegna þessara verkefna nema 1,1 milljarði króna og svo bætast við framlög sveitarfélaganna í formi niðurfelldra gjalda og kaupverðs lóða.

Íbúðir í Grafarvogi, Úlfarsárdal, á Kirkjusandi og í Hafnarfirði

Framkvæmdir við íbúðir Bjargs við Móaveg í Grafarvogi hefjast væntanlega fyrir lok þessa árs og ef áætlanir ganga eftir verða íbúðirnar tilbúnar á fyrri hluta árs 2019. Meðalstærð íbúða verður um 70 fermetrar. Íbúðalánasjóður hefur einnig veitt Bjargi stofnframlög vegna íbúða við Urðarbrunn í Úlfarsárdal, Hraunskarð í Hafnarfirði og á Kirkjusandi. Undirbúningur fleiri verkefna á vegum Bjargs stendur yfir.

Á síðustu 8 mánuðum hefur Íbúðalánasjóður samþykkt að veita 2,8 milljarða vegna byggingar og kaupa á yfir 500 leiguíbúðum. Úthlutun stofnframlaga vegna almennra íbúða er hluti af breyttu hlutverki Íbúðalánasjóðs sem er nú sú stofnun sem ber ábyrgð á framkvæmd húsnæðismála. Stofnframlögin eru veitt með það að markmiði að byggja upp hagkvæman og öruggan leigumarkað fyrir alla tekjuhópa.