Gerðir voru samtals 690 leigusamningar á landinu öllu í nóvember. Þetta er 22% samdráttur frá í október. Greining Íslandsbanka segir í Morgunkorni sínu í dag samdráttinn skýrast af árstíðasveiflum og sé sókn í leiguhúsnæði í dvala á þessum tíma og alveg fram á vor. Þegar sól tekur að hækka á lofti tekur leigumarkaðurinn við sér alveg þar til hann nær hámarki á haustin þegar skólaárið byrjar. Þetta er hringrás leigumarkaðarins, að sögn greiningardeildarinnar.

„Þrátt fyrir að leigumarkaðurinn sé nú að dragast saman er hann enn gríðarlega stór miðað við árin fyrir hrun. Síðustu fjögur ár hafa verið gerðir að meðaltali rétt undir 10 þúsund leigusamningar á ári hverju, en á tímabilinu 2005-2008 voru þeir 5 þúsund talsins,“ segir Greining Íslandsbanka í Morgunkorni sínu í dag.