Á síðustu fimmtán árum hafa stjórnvöld skipað 39 nefndir eða hópa til að fara yfir stöðuna á húsnæðismarkaði. Þetta kemur fram í svari velferðarráðuneytisins við fyrirspurn Viðskiptablaðsins. Eins og gefur að skilja hafa verkefni nefndanna verið misjöfn. Fjölmargar hafa fjallað um Íbúðalánasjóð og húsnæðismarkaðinn í heild sinni en einnig hafa verið skipaðar nefndir um mjög afmörkuð viðfangsefni eins og til dæmis fyrirkomulag húsnæðismála einstakra hópa, eins og námsmanna og fatlaðra.

Um fjórðungar nefnanna 39 hafa beint eða óbeint fjallað um leigumarkaðinn. Almennt má segja að tillögur nefndanna hafi yfirleitt snúist um að gera húsaleigubótakerfið skilvirkara og fjölga leiguíbúðum á markaðnum. Þó voru líka ýmsar aðrar lausnir nefndar. Í skýrslu nefndar, sem Árni Magnússon félagsmálaráðherra skipaði, og kom út árið 2004 töldu menn að 90% lánin myndu leysa vandann að hluta. Í lokaorðum skýrslunnar segir: „Einnig má benda á nýtt frumvarp félagsmálaráðherra um almennt 90% lán til húsnæðiskaupa. Sú breyting á lögum um húsnæðismál mun auðvelda fólki að kaupa eigið húsnæði í stað þess að vera á leigumarkaðnum.“

Leiguverð aldrei hærra
Miðað við stöðuna í dag virðist sem þetta hafi litlu skilað. Leiguverð hefur aldrei verið hærra og sífellt fleiri leita út á leigumarkaðinn. Það er ekki síst ungt fólk og þeir sem hafa lágar tekjur sem sækja á þennan markað. Fólk sem hefur ekki efni á að kaupa sér íbúð. Annað sem vekur athygli þegar leigumarkaðurinn er skoðaður er að það skortir sárlega heildstæða úttekt á honum. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni hefur hún ekki gert neina könnun eða úttekt á leigumarkaðnum í 14 ár, eða síðan árið 1999. Aðrar kannanir þó verið gerðar.

Í september síðastliðnum skipaði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, verkefnastjórn um skipan húsnæðismála. Með verkefnastjórninni starfar samvinnuhópur sem skipaður var í lok október.

Hlutverk þessarar nýju verkefnastjórnar er meðal annars að skoða hvernig unnt sé að tryggja virkan leigumarkað hér á landi sem og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem slíkt þurfa. Verkefnastjórnin átti að skila tillögum nú í janúar en samkvæmt upplýsingum úr velferðaráðuneytinu er ljóst er að þeirri vinnu seinkar eitthvað. Vonast er til að tillögum verði skilað í næsta mánuði.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .