Fyrir þá sem hyggjast fara út á leigumarkaðinn á Íslandi hefur oft reynst nokkuð erfitt að átta sig á hvar best sé að leita að húsnæði til leigu. Forritaranum Ásgeiri Gunnarssyni fannst vanta einhvern einn stað til að fá allar upplýsingarnar svo hann bjó hann til.

Leiguland.is safnar því saman upplýsingum um hvað er í boði af 12 helstu leiguvefjum landsins. Ekkert gjald er tekið af notkun Leigulands, en hann vonast eftir að stóru leigufélögin muni hafa áhuga á verkefninu.

„Það er frítt að nota vefinn, en auðvitað geta legið verðmæti í þessum gögnum sem ég hef verið að safna saman síðan í febrúar. Fyrir félög með kannski nokkur hundruð íbúðir í útleigu eins og stóru leigufélögin, þá gætu þau mögulega nýtt sér þessar upplýsingar til að komast að því hvert markaðurinn sé að fara og hvar mesta eftirspurnin sé á að fá leiguhúsnæði,“ segir Ásgeir.

„Gögnin núna sýna að mikið framboð er á leigueiningum til útleigu í póstnúmeri 101. Ég er með 916 leigueignir skráðar núna, þar af eru rúmlega 33% einstaklingsherbergi, en í heildina hafa um 5.700 eignir verið skráðar einhvern tímann á vefinn.“

Munar litlu fyrir stúdenta

Önnur ástæða fyrir því að Ásgeir ákvað að setja upp vefsíðuna var að hann hefur verið að leita fyrir sér að verkefnum í tölvuforritun, en auk þess hefur hann tekið að sér stundakennslu við Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

„Mig langaði í starf hjá Origo og vantaði svona portfólíusíðu til að vísa í hvað ég hefði gert, en svo hef ég sjálfur líka lent í því hversu erfitt það getur verið að finna leiguhúsnæði hérna á Íslandi,“ segir Ásgeir.

„Ég er líka með yfirlit yfir stúdentaíbúðir, en ekki sams konar upplýsingar um framboð og á almenna markaðnum. Hins vegar er hægt að sjá að það eru til um 85 mismunandi gerðir íbúða, það er eftir stærð, hvort þær henti fyrir einstaklinga, pör eða fjölskyldur, staðsetningar og verð. Það er merkilegt að það er ekkert gríðarlega stór munur á leiguverðinu í þeim og á einkamarkaðnum. Til að fara inn á stúdentavefinn er farið neðst á síðuna en fyrir þær sem og almennar íbúðir er hægt að fletta bæði eftir verði og öðrum atriðum.“

Ásgeir segir vefinn einfaldan í notkun en hægt er að sjá yfirlit yfir allar eignirnar án þess að skrá sig sérstaklega inn. Til að hafa samband við leigusalann þarf þó innskráningu.

„Þegar fólk hefur skráð sig inn getur það merkt hvar það sé helst að leita eftir húsnæði, hámarksverð, stærð og gerð, og þá fær það sjálfkrafa skilaboð um það sem býðst innan þeirra marka. Gögnin uppfærast daglega, en síðan er einnig hægt að skoða hraðvirkt kort sem sýnir allar helstu leigueignir sem í boði eru á landinu,“ segir Ásgeir.

„Ég hafði rekist á það að oft vantaði upplýsingar inn á auglýsingar sem buðu íbúðir til leigu og þess vegna fannst mér mikilvægt að hægt væri að sjá strax hvað sé innifalið í leiguverðinu, og þá hvort borga þurfi hússjóð, hita, rafmagn, internet og annað slíkt aukalega. Síðan hefur fengið góð viðbrögð strax frá upphafi og á fyrstu vikunni komu inn 500 notendur, en nú eru þeir um 1.200.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .