Þeir sem leigja út íbúðir í Reykjavík geta náð níu prósenta ávöxtun á eign sína fyrir skatt og viðhaldskostnað. Þetta er há ávöxtun í samanburði við aðrar evrópskar borgir samkvæmt greiningu Arion banka sem sagt er frá í Fréttablaðinu í dag. Er Reykjavík i þriðja sæti á eftir Chisinau í Moldóvu og Kíev í Úkraínu yfir þær borgir þar sem ávöxtunin er best.

Níu prósenta ávöxtun ber vott um að fasteignir í borginni séu á mörkum þess að vera undirverðlagðar ef tekið er mið af leiguverði og ætti því að vera gott að kaupa sér íbúð í dag, segir í Fréttablaðinu. Fram kemur í greiningu Arion banka að þetta geri Reykjavík að einum af fáum borgum innan Evrópu þar sem verðlagning eigna sé nokkuð sanngjörn. Almennt virðist sem fasteignir í miðborgum Evrópu séu yfirverðlagar en þá bera leigusalar undir fimm prósenta ávöxtun af fjárfestingunni.

„Mikilvægt er þó að hafa í huga að vaxtastig er mismunandi milli landa og þannig er vaxtastig almennt hærra hér en í öðrum samanburðarlöndum og því eðlilegt að ávöxtunarkrafa leigusala sé hærri," segir Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður Greiningar Arion.