Alls var 422 leigusamningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í febrúar sl., sem rúmlega 33% fækkun samninga á milli mánaða en tæplega 4% fjölgun á milli ára.

Þess ber þó að geta að samningum í janúar fjölgaði umtalsvert á milli mánaða en þá var fjöldi samninga sá mesti í einum mánuði frá því í september 2011. Þá hafði samningum í janúar ekki fjölgað jafn mikið á milli mánaða frá því að byrjað var að taka saman tölur um þinglýsta leigusamninga árið 2005 samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands. Leigusamningum á höfuðborgarsvæðinu fækkaði um 19,5% á milli ára á síðasta ári.

Þá var 639 leigusamningum þinglýst á landinu öllu í febrúar sem þýðir fækkun samninga um  tæp 34% á milli mánaða. Samningum á landinu öllu fækkaði um 16,2% á milli ára í fyrra.

Á myndinni hér að neðan sést þróun á fjölda leigusamninga á höfuðborgarsvæðinu sl. 3 ár. Þar sést hvernig þinglýstum leigusamningum hefur iðulega fjölgað í byrjun árs en fækkað jafn óðum strax í febrúar. Þróunin nú er því ekki frábrugðin því sem verið hefur síðustu ár. Svo virðist sem fjöldi leigusamninga taki kipp upp á við á sumrin.

Fyrir utan höfuðborgarsvæðið var flestum samningum þinglýst á Suðurnesjum í febrúar eða 93 samningum. Þá var 53 samningum þinglýst á Norðurlandi, 40 samningum á Suðurlandi og 17 samningum á Vesturlandi. Loks var 10 samningum þinglýst á Austurlandi og 4 samningum á Vestfjörðum.

Í fyrra, árið 2012, var alls 9.083 samningum þinglýst á landinu öllu, samanborið við um 9.950 samninga árið 2011 og um 10.400 samningum árið 2010. Þar af var um 5.700 samningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu, samanborið við 6.350 samninga árið 2011 og um 6.850 árið 2010.

© vb.is (vb.is)