Alls var 413 leigusamningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í apríl sl., sem er 15% fækkun samninga á milli mánaða. Leigusamningar á einum mánuði hafa ekki verið færri í fimm mánuði en fækkunin milli ára nemur um 5%.

Þá var 611 leigusamningum þinglýst á landinu öllu í apríl sem þýðir fækkun samninga um 13% á milli mánaða samkvæmt tölum frá Þjóðskrá Íslands.

Fjöldi leigusamninga hefur nú leitað niður á við þrjá mánuði í röð en fjöldi þeirra náði nokkru hámarki í september í fyrra þegar rúmlega 1.550 samningum var þinglýst. Eftir að hafa leitað niður á við næstu mánuði á eftir tók fjöldi samninga kipp upp á við í janúar sl. en þeim hefur þó fækkað aftur sem fyrr segir.

© vb.is (vb.is)

Á myndinni hér að ofan sést þróun á fjölda leigusamninga á höfuðborgarsvæðinu sl. 2 ár þar sem sést hvernig samningum hefur fjölgað nokkuð yfir sumartímann en snarfækkað aftur seinna um haustið og á fyrstu mánuðum ársins.

Ef horft er á landið í heild þá var sem fyrr segir 611 leigusamningum þinglýst á landinu öllu í apríl sl., samanborið við 704 samninga í mars. Samningum í apríl fækkar um rúm 2% á milli ára.

Fyrir utan höfuðborgarsvæðið var flestum samningum þinglýst á Suðurnesjum eða 73 samningum. Þá var 63 samningum þinglýst á Norðurlandi, 30 samningum á Suðurlandi og 20 samningum á Vesturlandi.

Sem fyrr var fæstum leigusamningum þinglýst á Vestfjörðum, en aðeins 2samningum var þinglýst þar í apríl. Þá var 9 samningum þinglýst á Austurlandi.