Alls var 487 leigusamningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu í maí á þessu ári,  sem er 12% fjölgun samninga frá því í apríl. Þá fjölgaði leigusamningum jafnframt á landinu öllu um 7,8% á milli mánaða í maí samkvæmt tölum frá Fasteignaskrá Íslands.

Fjöldi leigusamninga hafði leitað niður á við síðustu mánuði eða frá því í janúar sl. þegar fjöldi leigusamninga jókst um 40% á milli mánaða sem þá var mesta hækkun á milli mánaða frá því í janúar í fyrra.

Fjöldi leigusamninga á höfuðborgarsvæðinu náði hámarki í september sl. þegar tæplega 840 samningum var þinglýst.

Á myndinni hér að ofan sést þróun á fjölda leigusamninga á höfuðborgarsvæðinu sl. 2 ár. Þar sést hvernig leigusamningum fjölgaði jafnt og þétt fram á síðasta haust en síðan í september í fyrra hefur þeim farið heldur fækkandi þrátt fyrir fyrrnefnda fjölgun í janúar sl.

Ef horft er á landið í heild þá var 674 leigusamningum þinglýst á landinu öllu í maí sl., samanborið við 705 samninga í mars, sem þýðir 4,4% fækkun samninga á milli mánaða en 4,4% fækkun á milli ára.

Fyrir utan höfuðborgarsvæðið var flestum samningum þinglýst á Suðurnesjum í apríl, eða  61 samningi. Þá var  40 samningum þinglýst á Norðurlandi og 45 samningum á Suðurlandi.

Sem fyrr var fæstum leigusamningum þinglýst á Vestfjörðum, en aðeins 2 samningum var þinglýst þar í apríl. Þá hefur aðeins 20 leigusamningum verið þinglýst á Vestfjörðum frá áramótum.

Leigusamningar á landsvísu náðu jafnframt hámarki í september sl. þegar um 1.520 samningum var þinglýst. Þar af var um 280 samningum þinglýst á Norðurlandi.