Þinglýstum leigusamningum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði um þriðjung á milli mánaða í ágúst samkvæmt frétt á vef Þjóðskrár. Alls var 746 samningum þinglýst í mánuðinu en 559 í júlí. Þegar litið er til breytingar á milli ára fækkaði samningum á höfuðborgarsvæðinu um 2,5%, voru 762 í ágúst í fyrra.

Sömu sögu er hins vegar ekki að segja af landinu öllu. Þegar talan fyrir allt landið er skoðuð kemur í ljós að samningum fjölgaði um 5,1% á milli ára og heil 65% á milli mánaða. Auk höfuðborgarsvæðisins munar þar mestu um að á Suðurnesjum og Norðurlandi fjölgaði samningum á milli ára sem væntanlega má rekja til þess að námsmenn eru að koma sér fyrir nú þegar skólaárið er að hefjast.