Þinglýstir leigusamningar voru 804 talsins í síðasta mánuði og fjölgaði um 10,3% milli ára, en fækkaði um 10,7% milli mánaða. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Þjóðskrár.

Sé landinu skipt niður voru 550 samningar á höfuðborgarsvæðinu, sem er 12,9% aukning milli ára en 7% fækkun milli mánaða, 114 á suðurlandi að meðtöldum suðurnesjum, sem er 13% fækkun milli ára, og 79 á Norðurlandi, sem er 34% fjölgun milli ára. Aðrir landshlutar náðu ekki 50 samningum.

Það sem af er ári hefur nú alls 8.918 leigusamningum verið þinglýst, sem er 7,6% aukning frá sama tímabili í fyrra, þar af 6.089 á höfuðborgarsvæðinu, sem er 10,6% aukning. Lítil breyting er í flestum öðrum landshlutum, en 16,2% aukning á Vestfjörðum, sem telja nú 86 samninga frá áramótum, og 9,7% aukning á Norðurlandi, sem telur 893. Þá hefur samningum fækkað um 10,1% á Vesturlandi, sem telur nú 321 samning.