Rekstrarleigusamningur sem fyrirtækið Eirvík-Heimilistæki gerði við Lýsingu um leigu á bifreið í febrúar árið 2008 til þriggja ára var ekki ólögmætur og gengistryggður lánasamningur heldur leigusamningur og því lögmætur. Dómur þessa efnis féll í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Lýsing segir dóminn til þess fallinn að útkljá ágreining um rekstrarleigusamninga.

Í dóminum er tekið undir það sjónarmið Lýsingar að samningar þessir teljist leigusamningar en ekki lánssamningar með ólögmætu gengisviðmiði sem beri að endurreikna.

Taldi sig hafa greitt of mikið

Málið snýr að því að fyrirtækið tók bíl á leigu hjá Lýsingu. Samningurinn kvað á um að allar fjárhæðir væru tengdar erlendum gjaldmiðlum. Fjórðungur hans var í dollurum, 40% í evrum, 20% í japönskum jenum og 15% í svissneskum frönkum. Greiðslur tóku mið af breytingum á skráðu gengi Seðlabankans ásamt Libor-vöxtum. Afborganir voru í íslenskum krónum.

Fram kemur í dómnum að í samningum hafi ekki verð tiltekið kaupverð bifreiðarinnar né höfuðstóll samningsins. Eðli málsins samkvæmt væri nauðsynlegt að þessi atriði kæmu fram ef um lánssamning væri að ræða. Bílnum var skilað á þeim tíma sem samningurinn kvað á um.

Í málinu kemur fram að samkvæmt samningi við Lýsingu átti Eirvík-Heimilistæki að greiða 846.888 krónur fyrir bílinn með vöxtum. Raunin varð hins vegar að greiðslan nam 1.368.078 krónum. Fyrirtækið taldi ofgreiðsluna nema 521.190 og var krafist endurgreiðslu hennar með vöxtum á þeim forsendum að samningurinn væri lánasamningur og höfuðstóllinn gengistryggður með ólögmætum hætti.

Ekki ólögmætt lán

Í dómnum segir hins vegar að ekki sé unnt að fallast á það með stefnanda að tilmæli Fjármálaeftirlitsins frá 14. september 2010 eða álitsgerð lögfræðisetofunnar Landslaga frá 27. ágúst 2010 hafi bindandi áhrif við mat á því hvort samningurinn teljist lánssamningur eða leigusamningur.

Héraðsdómur taldi því um rekstrarleigusamning að ræða, sýknaði Lýsingu af kröfu um endurgreiðslu og dæmdi Eirvík-Heimilistæki til að greiða 900 þúsund krónur í málskostnað.