*

miðvikudagur, 24. júlí 2019
Innlent 16. ágúst 2018 16:00

Leigutekjur Regins jukust um 14%

Leigutekjur fasteignafélagsins Regins jukust um 14% frá fyrra ári, en hagnaður stóð í stað vegna fjórðungsaukningar fjármagnsgjalda.

Ritstjórn
Helgi S. Gunnarsson, forstjóri Regins.
Haraldur Guðjónsson

Samkvæmt tilkynningu gengur rekstur Regins vel og er samkvæmt áætlun. Rekstrartekjur námu 3.788 m.kr. og þar af námu leigutekjur 3.509 m.kr. Hækkun leigutekna frá sama tímabili fyrra árs var 14%.

Rekstrarhagnaður fyrir söluhagnað, matsbreytingu og afskriftir / EBITDA var 2.387 m.kr. sem er 15% hækkun samanborið við sama tímabil árið 2017.

Þrátt fyrir tekjuaukninguna og aukinn rekstrarhagnað var endanlegur hagnaður félagsins þó ögn minni en á sama tímabili í fyrra, rétt tæpur 1,5 milljarður í stað rétt rúms, sem skýrist aðallega af því að fjármagnsgjöld hækkuðu um fjórðung milli tímabilanna, og voru rúmir 1,8 milljarðar á fyrri helmingi þessa árs.

Reginn hóf einkaviðræður um kaup á HTO ehf. og Fast-2 ehf. í nóvember síðastliðnum – en stærstu eignir þeirra eru Höfðaturn og Borgartún 8-16 – og þann 18. maí var svo skrifað undir kaupsamning upp á rúma 23 milljarða króna.

Eftirspurn eftir atvinnuhúsnæði til leigu er sögð góð. Vel gangi að auka tekjur og framlegð. Mikil áhersla sé lögð á útleigu til opinberra aðila og sterkra leigutaka, opinberir aðilar séu á bak við 21% leigutekna.

Umbreytingu í Smáralind er sagt vera að ljúka og hafi tekist einstaklega vel. Árangurinn megi sjá í aukningu á gestafjölda og viðbrögðum leigutaka, en mikill vöxtur sé í gestafjölda bæði í Smáralind og Egilshöll.

Í tilkynningunni segir ennfremur að fyrri helmingur ársins 2018 hafi verið viðburðarríkur hjá félaginu og  einkennst af miklum umsvifum í tengslum við fjárfestingar vegna nýrra verkefna og leigusamninga. Síðasti hluti umbreytingar í Smáralind hafi falist í að ljúka samningum við fjögur ný alþjóðleg vörumerki, sem verði kynnt nú í haust.