Meðal leigutími hjá bílaleigum hefur dregist töluvert saman annað árið í röð. Ástæðurnar eru helst þær að ferðamönnum frá Bandaríkjunum er að fjölga, á kostnað ferðamanna frá Mið-Evrópu, og skiptifarþegar sem fljúga af landi brott samdægurs leigja sér í auknum mæli bíl.

„Fyrir tveimur árum kom það varla fyrir að við leigðum út bíla í einn dag við Keflavíkurflugvöll en í sumar höfum við fengið mikinn fjölda dagsleiga. Oftast koma viðskiptavinirnir að morgni og þá beint úr flugi og skila bílnum seinnipartinn,” segir Garðar Sævarsson, hjá Enterprise í samtali við Túrista.

Leigutíminn yfir sumarið hefur því dregist saman um 10% frá síðasta ári, en í fyrra styttist hann um 20%.

Þrátt fyrir þetta segir Garðar tekjur Enterprise fara vaxandi milli ára, enda félagið verið í uppbyggingu síðustu árin. Það eigi þó eftir að koma í ljós hvernig veturinn verði; yfirleitt sé skammur fyrirvari á vetrarbókunum, en verðin séu mun lægri þá, og því skipti sumarmánuðirnir sköpum.

Garðar segir miklar fjárfestingar bílaleiga í fyrra hafa valdið umframframboði, sem hafi þrýst verðlagi og nýtingu niður. Í ár hafi bílaleigur hinsvegar haldið að sér höndum í fjárfestingum, verðið hafi því verið stöðugra og nýtingin batnað.