Framboð á atvinnuhúsnæði er mikið og hefur leiguverð á slíku húsnæði jafnvel lækkað meira en á íbúðarhúsnæði segir Svanur Guðmundsson, framkvæmdastjóri leigumiðlunarinnar husaleiga.is. Að sögn Svans hefur leiguverðið á sumum svæðum lækkað um 40%-50%.

„Þrátt fyrir það hefur hreyfing á atvinnuhúsnæði verið lítil undanfarið en virðist vera að glæðast nú og er helsta skýringin sem við höfum sú að fyrirtæki séu að færa sig til í minna eða ódýrara húsnæði til hagræðingar."

Að sögn Svans hefur leiguverð á íbúðarhúsnæði verið að lækka umtalsvert og má segja að lækkunin sé um 30% frá síðasta hausti.

„Í sumar og haust var mikill munur á ásettu verði eigna og tilboðum leigjanda í eignir. Lækkun á leiguverði nálgast mikið tilboð leigjanda í eignir sem segir mér að leiguverð sé að ná jafnvægi," sagði Svanur.