Moskva er komin upp fyrir London Square Mile á lista yfir þá staði þar sem dýrast er að leigja skrifstofuhúsnæði, og situr nú í 2. sæti listans.

Lánsfjárkrísan hefur haft áhrif til lækkunar leiguverðs í fjármálahverfi Lundúna, samkvæmt frétt Wall Street Journal (WSJ). Á meðan hefur fasteignaverð í Moskvu hækkað mikið. Ársleiga fyrir skrifstofuhúsnæði í Moskvu hækkaði um 46% á árinu 2007 borið saman við árið áður.

London West End er áfram í fyrsta sæti listans, en leiguverð þar er 1.759 pund á fermetra á ári. Leiguverð skrifstofuhúsnæðis í Rússlandi var árið 2007 að meðaltali 1.026 evrur á fermetra á ári. Í fjármálahverfi Lundúna, London´s Square Mile, var leiguverð á árinu 2007 að meðaltali 890 evrur á fermetra.

Samkvæmt frétt Wall Street Journal hefur aukning framboðs ekki fylgt eftir eftirspurnaraukningu á markaði með skrifstofuhúsnæði í Moskvu. Er það einkum vegna þess að Moskva hefur hagnast á hrávöruverðshækkunum sem hafa leitt til mikillar eftirspurnar eftir skrifstofuhúsnæði í borginni.