*

sunnudagur, 16. maí 2021
Innlent 18. september 2019 17:40

Leiguverð enn á uppleið

Meðalleiguverð á fermetra er hæst vestan Kringlumýrarbrautar í Reykjavík og á Seltjarnarnesi.

Ritstjórn
Meðalverð á hvern fermetra í stúdíó íbúð er hæst í Breiðholti eða ríflega 4.500 krónur.
Haraldur Guðjónsson

Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1% milli mánaða júlí-ágúst. Vísitalan var skráð 198 stig í nýliðnum ágúst og hefur nær tvöfaldast frá janúar 2011 þegar hún var 100 stig. Síðastliðna þrjá mánuði hækkaði vísitalan um 1,2% og síðustu 12 mánuði hefur hún hækkað um 3,7%.  

Talnaupplýsingar um leiguverð í ágúst 2019 eru unnar upp úr 591 leigusamningum sem þinglýst var í ágúst 2019.

Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs. Íbúðarhúsnæði er skipt í flokka eftir herbergjafjölda og staðsetningu. Reiknað er meðalfermetraverð fyrir 6 flokka íbúðarhúsnæðis. Niðurstaðan er vegin með hlutdeild viðkomandi flokks í heildarverðmæti á markaði miðað við undangengna 12 mánuði. 

Meðalleiguverð á hvern fermetra er hæst á Seltjarnarnesi og í Reykjavík, vestan Kringlumýrarbrautar, í þremur flokkum, þ.e. 2, 3 og 4-5 herbergja húsnæði. Hins vegar er leiguverð á hvern fermetra stúdíóíbúða hæst í Breiðholti eða 4.547 krónur. 

Sjá má glögglega í gögnum Þjóðskrár að leiguverð á hvern fermetra er umtalsvert hærra eftir því sem húsnæðið er minna. Þannig er meðalverð 2.491 krónur á fermetra í 4-5 herbergja húsnæði vesturhluta Reykjavíkur, 2.913 krónur fyrir 3 herbergja og 3.272 krónur fyrir 2 herbergja. Meðalleiguverð á hvern fermetra fyrir Stúdíóíbúð á sama svæði er hins vegar 4.338 krónur.