Leigjendur í leit að leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu mega eiga von á að þurfa að greiða um það bil 231 þúsund krónur á mánuði fyrir rétt rúmlega 100 fermetra íbúð. Meðalleiguverð á hvern fermetra á höfuðborgarsvæðinu á fyrstu átta mánuðum ársins 2020 er um 2.275 krónur. Þetta má sjá í gögnum úr verðsjá Þjóðskrár Íslands, en þær upplýsingar sem koma fram í verðsjánni byggja á þinglýstum leigusamningum fasteigna. Viðskiptablaðið tók saman þróun leiguverðs á 90 til 120 fermetra eignum í fjölbýli frá árinu 2016 til og með ársins 2020 annars vegar og 120 til 250 fermetra eignum í sérbýli hins vegar. Í báðum tilfellum var fermetraverð fyrstu átta mánuði hvers árs skoðað.

Dýrasta leigan á Seltjarnarnesi

Þegar leiguverð á 90 til 120 fermetra íbúðum í fjölbýli er skoðað má sjá að fermetraverð hækkaði mest á milli áranna 2016 og 2017 eða um tæplega 12%. Verðhækkunin nam tæplega 9% 2017 og 2018 og 4% á milli áranna 2018 og 2019. Á fyrstu átta mánuðum núverandi árs hefur leiguverð nánast staðið í stað frá fyrra ári, en hækkunin milli ára nemur um hálfu prósentustigi.

Nokkur munur er á fermetraverði 90 til 120 fermetra eigna innan höfuðborgarsvæðisins. Á fyrstu átta mánuðum ársins var leiguverð á hvern fermetra hæst á Seltjarnarnesi eða 2.766 krónur að meðaltali. Næsthæsta fermetraverðið er í Hvassaleiti, eða í póstnúmeri 103, þar sem fermetraverð nemur 2.530 krónum. Möguleg skýring á því er að mikil þétting byggðar hefur átt sér stað á svæðinu og má reikna með að einhverjar af þeim nýju íbúðum sem hafa risið við Útvarpshúsið í Efstaleiti séu farnar í útleigu. Þar á eftir kemur Bryggjuhverfið en meðalleiguverð á hvern fermetra í hverfinu er 2.466 krónur. Þess ber þó að geta að einungis fimm leigusamningar liggja að baki í tilfelli Seltjarnarness og Hvassaleiti og ellefu samningar í Bryggjuhverfinu.

Ódýrasta leiguverðið er í Réttarholtshverfinu í Reykjavík en meðalleiguverð á hvern fermetra í hverfinu nemur 1.798 krónum. Næstódýrast er að leigja í Seláshverfinu í Árbænum þar sem fermetraverð nemur 1.957 krónum. Árbærinn fylgir fast á hæla Seláss með leiguverð á hvern fermetra sem nemur 1.998 krónum. Ber þess einnig að geta að í þessu tilfelli liggja einungis sex leigusamningar að baki í Réttarholtshverfinu, þrír í Seláshverfinu og þrettán í Árbæ.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .