Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu var 147,6 stig í febrúar 2016 og hækkaði um 1,2% frá fyrri mánuði. Síðastliðna 3 mánuði lækkaði vísitalan um 0,1% og síðastliðna 12 mánuði hækkaði hún um 4,5%. Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs. Kemur þetta fram á vefsíðu Þjóðskrár

Í leigugagnagrunni Þjóðskrár eru 681 samningur, sem þinglýst var í febrúar 2016. Við úrvinnslu talnaupplýsinga um leiguverð var leigusamningum sem eru eldri en 60 daga við þinglýsingu, samningum þar sem herbergjafjöldi íbúða er ekki þekktur, samningum um félagslegar íbúðir o.fl. sleppt. Talnaupplýsingar um leiguverð í febrúar 2016 eru því unnar upp úr 429 leigusamningum sem þinglýst var í febrúar 2016.

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu 11. mars til og með 17. mars 2016 var 165. Þar af voru 119 samningar um eignir í fjölbýli, 33 samningar um sérbýli og 13 samningar um annars konar eignir en íbúðarhúsnæði. Heildarveltan var 8.247 milljónir króna og meðalupphæð á samning 50 milljónir króna.

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu var 453,2 stig í febrúar 2016 og hækkaði um 0,4% frá fyrri mánuði. Síðastliðna 3 mánuði hækkaði vísitalan um 2,4%, síðastliðna 6 mánuði hækkaði hún um 4,6% og síðastliðna 12 mánuði hækkaði hún um 7,0%.