Leiguverð á íbúðum hefur hækkað meira en kaupverð íbúða það sem af er ári, samkvæmt upplýsingum Hagfræðideildar Landsbankans. Í Hagsjá deildarinnar segir að í fyrra hafi leiguverð og kaupverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu hækkað jafn mikið. Það sem af er þessu ári hafi leiguverðið hins vegar hækkað um 10% á meðan kaupverð hefur hækkað um 6,2%.

Hækkunin er ekki háð stærð íbúða en sé litið á fermetraverð 2ja, 3ja og fjögurra herbergja íbúða í Reykjavík kemur fram að hækkunin er svipuð á öllum íbúðastærðum. Því líti ekki út fyrir að minni íbúðir hafi hækkað meira en þær stærri, að því er fram kemur í Hagsjánni.

Hagfræðideildin segir að á síðustu misserum hafi stundum myndast bil á milli leiguverðs og kaupverðs en yfirleitt hafi sú þróun gengið til baka. Af þeim sökum sé erfitt að fullyrða að húsaleiga á höfuðborgarsvæðinu sé að hækka marktækt umfram kaupverð íbúða sé horft yfir lengra tímabil.