Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 1,4% í maí en þetta kemur fram í nýjum tölum frá Þjóðskrá.

Leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hefur nú hækkað um 9,3% á síðustu tólf mánuðum. Árshækkun vísitölunnar hefur ekki mælst jafnmikil síðan í október 2018, þegar árshækkunin mældist 9,6%.

Árshækkun vísitölu neysluverðs mældist 7,6% í maí. Þegar tekið er tillit til verðlags hefur leiguverð staðið í stað á undanförnum tveimur árum. Á sama tíma hefur íbúðaverð hækkað um 26% umfram vísitölu neysluverðs.

Stýrivextir hækki enn frekar

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun að stýrivextir bankans yrðu hækkaðir úr 3,75% í 4,75%. Nefndin telur líklegt að herða þurfi taumhald peningastefnunnar enn frekar til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið „innan ásættanlegs tíma“.

Þetta er sjöunda skiptið í röð sem nefndin ákveður að hækka vexti, eða við allar vaxtaákvarðanir frá því í maí 2021. Frá þeim tíma hafa meginvextir bankans hækkað úr 0,75% í 4,75%.

Sjá einnig: Leiguverð taki við sér

Kári S Friðriksson, hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, sagði í samtali við Viðskiptablaðið nú á dögunum að útlit sé fyrir að leiguverð taki við sér á næstu misserum.

Þar sagði hann að hækkandi stýrivextir, endurkoma ferðaþjónustunnar og miklir fólksflutningar til landsins á næstu árum, væru allt þættir sem gætu sett þrýsting á leigumarkaðinn.