„Ef leiguverðið á að vera svona hátt áfram þurfa leigjendur að fá meiri stuðning til að ná endum saman,“ segir Jóhann Sigurbjörnsson, formaður Samtaka leigjenda á Íslandi. Fram kemur í Fréttablaðinu í dag að leiguverð á íbúðum hefur hækkað um að meðaltali 8,2% á síðustu 12 mánuðum. Til samanburðar mældist 2,2% verðbólga á sama tímabili. Hækkunin er mest á tveggja herbergja íbúðum í Breiðholti. Meðalverð á fermetra á nýjum leigusamningum í mars var 29% hærra en á nýjum samningum í mars í fyrra. Leiguverð fyrir tveggja herbergja íbúðir í Kópavogi hefur einnig hækkað verulega, um 21% milli ára.

Leiguverðið er almennt hæst miðsvæðis í Reykjavík, en lækkar talsvert því lengra sem farið er frá dýrasta svæðinu.

Jóhann segir leiguverðið orðið þannig miðsvæðis í Reykjavík að fólk sé farið að halda sig frá miðbænum. „Verðið sem er í gangi þar er ekkert fyrir hinn venjulega meðaljón. Menn leita frekar í úthverfin þar sem leigan er há, en þó lægri en í og við miðborgina.“

Jóhann segir í samtali við blaðið félagsmenn samtakanna finna fyrir hækkununum. Stjórnvöld hafi ekki stutt við þennan hóp eins og fasteignaeigendur, sem hafi fengið sérstakar vaxtabætur frá árinu 2009. Þá segir í blaðinu að samtökin gagnrýni stjórnvöld fyrir áform um niðurfellingu á hluta höfuðstóls fasteignalána. Ekki sé komið til móts við leigjendur.