*

miðvikudagur, 19. janúar 2022
Innlent 12. september 2016 14:40

Leiguverð hefur hækkað um 53%

Meðalleiguverð á mánuði á hvern fermetra í Reykjavík hefur hækkað umtalsvert á síðustu fimm árum.

Pétur Gunnarsson
Haraldur Guðjónsson

Leiguverð hækkar talsvert alls staðar í Reykjavík. Ef miðað er við meðalverð á fermetra í 2 herbergja íbúð á mánuði er hægt að sjá glöggt hversu mikil hækkun hefur orðið á meðalleiguverði á fermetra í Reykjavík. Í úttekt Viðskiptablaðsins er stuðst við tölur frá Þjóðskrá, þar sem koma fram hinar ýmsu upplýsingar um leiguverð íbúðarhúsnæðis.

Í janúar 2011 var meðalverð á fermetra í Reykjavík, vestan Kringlumýrarbrautar og á Seltjarnarnesi 1.637 kr. Í júlí 2016, hafði það hækkað upp í 2.512 kr. á fermetrann. Nemur þetta 53,4% hækkun, en miðað er við nafnvirði leigu á hverjum tíma.

Því hefði 50 fm. íbúð á svæðinu vestan við Kringlumýrarbraut kostað einstakling að meðaltali um 81.850 kr. á mánuði, í janúar 2011. Í júlí 2016, rúmum fimm árum síðar þarf að greiða um 125.600 kr. í leigu á mánuði fyrir 50 fm. íbúð.

 

Reykjavík milli Kringlumýrarbrautar og Reykjanesbrautar

Í Reykjavík milli Kringlumýrarbrautar og Reykjanesbrautar hækkar meðalleiguverð á fermetra einnig talsvert. Meðalverð í janúar 2011, var 1.622 kr. á fermetrann á mánuði. Meðal mánaðarverð á fermetra í júlí 2016 hafði hækkað upp í 2.588 kr. á sama svæði. Þetta þýðir því að þeir sem vilja leigja íbúð í Reykjavík milli Kringlumýrarbrautar og Reykjanesbrautar þurfa að borga um 129.400 kr. á mánuði í leigu, samanborið við 81.110 kr. á mánuði í byrjun árs 2011.

Hægt er að sjá þróun á meðalverði í Reykjavík á meðfylgjandi grafi. Þar er miðað við meðalverð á fermetra í 2 herbergja íbúð og hægt er að sjá tölur frá Grafarvogi, Grafarholti, Árbæ, Norðlingarholti og Úlfarsdal saman og Breiðholtinu. Einnig ber að taka fram að þetta er nafnverðshækkun en ekki raunvirðishækkun.

Stikkorð: Reykjavík Leiguverð hækkun