Samkvæmt greiningu Ársæls Valfells, lektors við Háskóla íslands, á íbúðarmarkaðnum hefur leigurverð lækkað örlítið að raunvirði frá árinu 2009. Þetta kom fram á fundi sem VÍB, eignastýringarþjónusta Íslandsbanka, stendur fyrir í Hörpu í hádeginu í dag þar sem greiningar á fasteignamarkaðnum voru kynntar.

Í samantekt sem send var fjölmiðlum frá VÍB segir að þessi örlitla lækkun á leiguverði að raunvirði gæti „bent til þess að erfitt sé að færa frekari kostnaðarliði út í leiguverð og því muni leigusalar með auknum hætti taka á sig framtíðar kostnaðarhækkanir".

Einnig segir að á sama tíma og kostnaður við að leigja húsnæði hafi hækkað sé ekki hægt að segja að eigendur íbúðarhúsnæðis í útleigu hagnist þar sem hrein arðsemi í leigu á húsnæði sé lægri en sem nemur fjármagnskostnaði þeirra.