Áætlað er að um 1,2 milljónir muni heimsækja Katar í nóvember og desember þegar heimsmeistaramótið í fótbolta fer fram þar í landi. Húsnæðisskortur ríkir í landinu vegna komu þeirra, og hafa leigusalar í Katar brugðist við með hækkunum.

Samkvæmt frétt Bloomberg eru íbúar í vinsælum hverfum að taka á sig allt að 40% hækkun á leigu sem neyðir marga til að flytja frá heimilum sínum þrátt fyrir að hafa greitt samviskusamlega í langan tíma.

FIFA hefur tekið frá þúsundir hótelherbergja fyrir leikmenn, starfsmenn og aðra tengda mótinu og hafa mörg hótel í Katar því neyðst til að losa sig við fólk sem hefur búið í hótelunum yfir langt skeið.

Vegna þessa hefur ákveðinn viðsnúningur orðið á leigumarkaði. Fram að þessu höfðu heilu íbúða- og verslunarbyggingarnar staðið tómar. Á fyrsta ársfjórðungi hækkaði leiga um 3,3% á milli ára, samkvæmt gögnum frá ValuStrat. Á sama tíma hækkaði leiguverð á landfyllingareyjunni Pearl um 19% á milli ára. Húsnæði var jafnframt næststærsti liðurinn í 5,4% verðbólgu í Katar í júní.

Joseph Abraham, forstjóri Commercial Bank of Qatar, segir þetta vera skammtímaástand. „Í mínum huga er þetta tímabundið ástand út af HM. Eftir mótið mun þrýstingur á leigumarkaði dragast saman og á sama tíma mun framboð leiguíbúða aukast.“