Bandaríska dagblaðið Wall Street Journal fullyrti í gær að fjárfestingarbankinn Lehman Brothers myndi á næstu vikum tilkynna um fyrsta ársfjórðungstapið í 158 ára sögu bankans. Jafnframt kom fram í blaðinu að forráðamenn bankans myndu tilkynna um áform um hlutafjáraukningu á sama tíma og ársfjórðungsuppgjörið yrði kunngjört. Blaðið hefur eftir sérfræðingum á Wall Street að Lehman muni bjóða út nýtt hlutafé í almennu útboði að verðmæti 3 til 4 milljarðar Bandaríkjadala.

Upphæðin kann að þýða að tap bankans á fjórðungnum, sem leið undir lok um síðustu mánaðamót, sé jafnvel meira en þær 300 milljónir dala sem búist er við af sumum sérfræðingum. Eigi frétt Wall Street Journal við rök að styðjast ætti það kannski ekki að koma á óvart. Fram kemur í breska blaðinu The Daily Telegraph að Lehman hafi aðeins afskrifað 200 milljónir dala af 4 milljarða dala eignasafni sínu í undirmálslánum á fyrsta fjórðungi þrátt fyrir að fjórðungur safnsins hefði lánshæfismat skranbréfa (e. junk bond).

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .