Tveir norrænir bankar eru sagðir hafa áhuga á að festa kaup á Roskilde Bank, en danski seðlabankinn þurfti að veita bankanum 12 milljarða króna neyðarlán á dögunum til þess að forða honum frá þroti. Sérfræðingar telja að örlög bankans kunni að vera fyrirboði frekara samrunaferlis á norrænum fjármálamarkaði.

Á föstudag neyddust forráðamenn Roskilde Bank að leita á náðir ríkisvaldsins í kjölfar þess að afskrifa þurfti háar fjárhæðir vegna þróunarinnar á danska fasteignamarkaðnum. Fasteignaverð hefur fallið hratt í Danmörku og er búist við 10% verðfalli í ár og því næsta. Lækkunin er, líkt og í svo mörgum öðrum ríkjum um þessar mundir, rakin til hækkandi lánsfjárkostnaðar og framboðs sem er langt umfram eftirspurn.

Roskilde Bank er annar danski bankinn sem fer í þrot á skömmum tíma. Fram kemur í umfjöllun Dow Jones-fréttaveitunnar að bæði Nordea og Svenska Handelsbanken (SHB) hafi áhuga á að festa kaup á bankanum, en útibúanet hans samanstendur af 25 einingum.

Dow Jones hefur eftir Claus Christiansen, fjölmiðlafulltrúa Nordea, að ekki sé útilokað að bankinn hafi aðkomu að lausn mála Roskilde Bank. SHB gengur ekki jafn langt í yfirlýsingum sínum en forráðamenn bankans hafa ítrekað áhuga sinn á að kaupa lítinn, vel rekinn danskan banka í kjölfar yfirtökunnar á Midtbank.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .