„Leiða má að því getum að FL Group hafi ætlað að bíða með tilkynningu á sölu í Commerzbank fram yfir næsta uppgjör, þar sem hluturinn var ekki flöggunarskyldur, en tekið þá ákvörðun að flýta fyrir eftir að þýski bankinn tók að falla hratt í gær og markaðurinn tók hugsanlega að ofmeta tapið," segir greiningardeild Kaupþings.

Í tilkynningu frá FL Group sem send var út í gær segir að í ljósi lækkunar hlutabréfa í Commerzbank undanfarna daga hefur FL Group ákveðið að upplýsa um eignarhlut sinn í bankanum sem er um 2,1% 15. janúar 2008 en um áramót var eignarhluturinn um 2,9% og hafði þá minnkað úr 4,3% í lok þriðja ársfjórðungs. Sala hlutar FL Group í bankanum er hluti af reglulegu mati félagsins á eignum sem ekki falla undir kjarnafjárfestingar.

Heildargengistap vegna lækkunar bréfa Commerzbank á árinu 2008 nemur um 2,6 milljörðum króna, m.v. gærdaginn, að teknu tilliti til markaðsvarna félagsins.