Ásbjörn Björgvinsson, markaðsstjóri Lava Centre, segir í samtali að sýningin verði opnuð 1. júní næstkomandi og komi til með að vera allsherjar fræðsluog upplifunarmiðstöð um jarðfræði Íslands; eldfjöllin, eldgosin, og jarðskjálfta. „Til að setja á okkur smá pressu, þá settum við inn á heimasíðuna okkar niðurteljara. Ef þú ferð inn á Lavacenter.is, þá tikkar inni á forsíðunni niðurteljari, sem telur niður til opnunardags 1. júní. Það er búið að reisa húsið, það gerðist mjög hratt,“ segir Ásbjörn. Þrátt fyrir að sýningin sé ekki fullkláruð segir Ásbjörn að fólk sem þegar hafi komið inn í tómt sýningarrými hafi brugðist við með því að segja einfaldlega: „Vá“.

Hann segir að húsið sé byggt úr timbureiningum sem koma frá Austurríki og eru samnýtt greni. „Það gekk mjög vel að koma þessu öllu upp og nú er búið að mála húsið að innan og steypa. Vinna við leikmyndina, það er við sýninguna sjálfa, er að fara af stað í þessum töluðu orðum. Við ætlum að hafa þarna opið hús 3. mars fyrir ferðaþjónustuna, þá er hægt að labba í gegnum það og upplifa húsið áður en við förum að setja upp sýninguna sjálfa,“ tekur Ásbjörn fram.

12 metra hátt sýningarrými

Ásbjörn fer yfir það hvernig sýningin kemur til með að líta út þegar hún er tilbúin. „Grunnhugmyndin er sú að við leyfum fólki að upplifa þetta, fólkið sjálft er í raun þátttakendur í sýningunni, þetta er allt gagnvirkt. Fólk ýmist hlustar, sér eða hreyfir sig til að ná fram upplýsingum. Þarna er verið að leggja áherslu á það hvernig Ísland varð til. Við útskýrum það á tímahjóli og sýnum 70 milljóna ára sögu reks jarðskorpunnar og hvernig möttulstrókurinn undir Íslandi hóf að mynda landið. Í raun rís norðurhvel jarðar upp úr gólfinu, það er tímahjól sem þú þarft að snúa sjálfur til að horfa á þessa sögu,“ útskýrir hann.

Ásbjörn bætir við að sýningin komi til með að byggjast á fjórum sýningarrýmum og svo eru upplifunargangar á milli sýningarrýmanna. „Á fyrsta ganginum labbarðu í gegnum jarðskjálfta sem er byggður á jarðskjálftagögnum. Þannig að við erum að breyta mælingum yfir í hljóð, högg, titring og bylgjur. Maður upplifir því jarðskjálfta á leið inn í kjarna sýningarinnar, sem er möttulstrókurinn sjálfur. Hann er í tólf metra háu rými og er byggður á möttulstróknum sem við stöndum á núna. Þetta er leikmynd sem við búum til úr heilmiklu stálvirki og við búum til klæðningu út frá því . Þar fyrir innan verða ljósdíóð- ur, sem búa til kvikuhreyfingu. Þú sérð eins og kviku streyma upp undir landinu og Ísland er á toppnum á herberginu,“ segir Ásbjörn.

„Við erum að leika á öll skynfærin; hljóð heyrn, sjón og hitabreytingar,“ tekur Ásbjörn fram, þegar hann lýsir sýningunni sem verður tilbúin í sumar. Hann tekur fram að í öðru herbergi verið sérútbúinn kvikmyndasalur þar sem áætlað er að sýna það heitasta af því myndefni sem til er í 4K. „ Svo þegar fer að gjósa förum við í beina útsendingu og sýnum gosið á tjaldinu hjá okkur,“ bætir hann við.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu á pdf-formi með því að smella á hlekkinn Tölublöð.