Breska leikjafyrirtækið King Digital Entertainment gæti verið metið á 7,9 milljarða dala, jafnvirði tæpra 890 milljarða íslenskra króna. Fyrirtækið er best þekkt hér á landi fyrir leikinn Candy Crush Saga sem margir hljóta að kannast við. Þessa dagana er verið að leggja grunninn að hlutafjárútboði King vegna fyrirhugaðrar skráningar fyrirtækisins í kauphöll í Bandaríkjunum.

Fréttastöðin Fox segir miklu skipta að útboðið gangi vel og rifjar upp fremur slakt gengi leikjafyrirtækisins Zynga á hlutabréfamarkaði. Hlutabréf fyrirtækisins voru skráð á markað í desember árið 2011. Síðan þá hefur gengi bréfa félagsins fallið um 50%. Í umfjöllun Fox segir að gangi útboðið vel megi alveg búast við því að skriður komist á skráningar tæknifyrirtækja á markað á nýjan leik.

King var stofnað árið 2003. Reksturinn skilaði hagnaði árið 2005 og hefur gert það æ síðan.