Það er kominn meiri ferðahugur í Breta eftir að tilkynnt var í gær að slakað yrði á reglum um Covid-próf við komu til Englands og Skotlands. Bókanir hjá breska flugfélaginu Jet2 hefur fjölgað um 30% frá síðustu viku.

Breytingin felur í sér að fullbólusettir einstaklingar þurfa ekki að fara í skimun við komu til Englands og Skotlands frá og með 11. febrúar næstkomandi. Auk þess var slakað á reglum fyrir fólk sem er ekki fullbólusett en þau þurfa nú ekki að fara í einangrun eða í skimun á áttunda degi frá komu. Enn er þó gerð krafa um að óbólusettir þurfi að fara í Covid-próf fyrir brottför og á öðrum degi frá komu.

Stece Heapy, forstjóri Jet2 sagði við BBC að undanþágan frá skimun væri „leikbreytir“ (e. game-changing) fyrir ferðageirann. Eftirspurn hafi þegar verið nokkuð mikil fyrir breytinguna en frá því í gær hefur bókunum fjölgað enn frekar. Andrew Flingtham, framkvæmdastjóri Tui í Bretlandi, fagnaði einnig breytingunum og sagði að bókanir hjá ferðaskrifstofunni hefðu fjölgað verulega.

„Við gerum núna ráð fyrir að bókanir í sumar verði komnar aftur á sama stig og fyrir faraldurinn,“ er haft eftir Flintham.