Á fundi bæjarráðs Akureyrar í morgun samþykkti meirihluti að veita 7,5 milljónum króna til Menningarfélags Akureyrar í þeim tilgangi að tryggja samfellu í starfsemi Leikfélags Akureyrar. Þetta kemur fram í fundargerð bæjarráðs.

RÚV greinir frá því að á fundi bæjarráðs 10. júlí óskaði varaformaður stjórnar Leikfélags Akureyrar eftir 7,5 milljónum í aukafjárveitingu til að félagið gæti haldið úti lágmarksstarfsemi til loka ársins 2014. Nota átti fjárhæðina til að taka á móti tveimur gestasýningum og setja upp sjálfstætt framhald af sýningunni Saga þjóðar með hljómsveitinni Hundur í óskilum.

Bæjarráð ákvað að fresta afgreiðslu málsins og afla frekari gagna fyrir næsta fund og því var gengið frá málinu í morgun.