Heilsuræktarstöðin Hreyfiland opnaði nýja stöð á Eiðistorgi á Seltjarnarnesi í mars síðastliðnum. Krisztina G. Agueda ,eigandi Hreyfilands og íþróttakennari, stofnaði fyrirtækið árið 2003 ásamt eiginmanni sínum en áður sá hún um svipaða þjálfun í heimalandi sínu, Ungverjalandi. Hún sér að mestu um alla kennsluna og leggur mikið upp úr því að örva hreyfiþroska barna.

Í Hreyfilandi er boðið upp þjálfun fyrir börn á aldrinum 0-16 ára. Krisztina segir mikilvægt að örva hreyfiþroska barna á þessum aldri því slík örvun getur haft mikil áhrif á heilastarfsemi þeirra. Hún segir mikilvægt að fylgjast með hreyfiþroska barna og eyða góðum tíma með þeim. Foreldrar eigi að vera fyrirmyndir. „ Ef við skríðum, dönsum og klöppum með börnunum þá hvetjum við þau til að gera eins“.