*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Fjölmiðlapistlar 25. júní 2013 08:10

Leikföng fyrir fullorðna

Þeir sem vilja vernda barnið innra með sér ættu að horfa á sjónvarpsþættina Fum og fát.

Jón Aðalsteinn Bergsvein

Eftir að ég komst á það sem kallað er fullorðinsár og eignaðist börn og þurfti að haga mér eftir frekar leiðinlegum reglum samfélagsins þá hef ég leynt og ljóst farið að leita eftir einhverju til að viðhalda því sem einkenndi barnið innra með mér; þessa undrun barna yfir hinu og þessu, taumlausri og óbældri gleði sem löngu er komin í bönd og öðru í þeim dúr. Þessi von að halda lífinu í barninu innra með mér kviknar í hvert sinn sem ég sé hoppukastala og klifurvegg. Ég læt aldrei vaða heldur stend þögull hjá með kreist bros. Enda veit ég að allur vindur myndi fara úr kastalanum og klifurveggurinn fara á hliðina þegar um 100 kílóa fullorðinn karlmaður myndi hamast á græjunum.

Belgíski hreyfimyndaþátturinn Fum og fát (sem upp á frönsku heitir Panique au village) á RÚV upp- fyllir þetta tómarúm í sál fullorðins manns. Þættirnir, sem fjalla um plastleikföngin Kúrekann, Indíánann og

Hestinn, eru alla jafna ekki sýndir um svipað leyti og Stundin okkar og þættir um Diego og Dóru enda ekki á færi barna að skilja. Þá eru þættirnir á frönsku og textaðir og því ekki á færi barna að skilja. Í raun er fátt í þáttunum sem rúmast innan þess heims sem börn skilja.

Síðasti þáttur sem ég sá var dæmi um þetta. Hann fjallaði um plastleikfang í líki Jesú sem á einstaklega súrrealískan hátt selur söguhetjum þáttanna - og reyndar aukapersónum líka - trönur og striga. Allir taka við það að mála. Fyrirmyndin er hins vegar sama blómið, sem barist er um. Aðrir þættir eru af svipuðum toga en í einum áforma Kúrekinn og Indíáninn að gleðja Hestinn með heimagerðri gjöf á afmælinu hans. Það lukkast ekki sem skyldi og eyðileggja þeir hús Hestsins í staðinn. Í kjölfarið fara þremenningarnir af stað í ferðalag að miðju jarðar, fara yfir freðmýrar og finna neðansjávarveröld þar sem óheiðarlegar verur með uppmjó höfuð halda til.

Það er eitthvað ótrúlega bernskt við þessa þætti, óáþreifanlegur kraftur sem fær fullorðið fólk til að hlæja eins og börn.

Pistll Jóns Aðalsteinn birtist í Viðskiptablaðinu 20. júní 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér.