Íslensk fyrirtæki með starfsemi í Noregi eru nú farin að finna verulega fyrir gengis­ þróun norskrar krónu gagnvart þeirri íslensku seinustu misserin. Undanfarna 12 mánuði hefur gengi norsku krónunnar veikst um rúm 17% gagnvart þeirri íslensku, og þar af um 6,5% frá 16. júlí síðastliðnum. Ástæðuna má meðal annars rekja til lækkandi olíuverðs, en Viðskiptablaðið fór í saumana á þróun efnahagsmála í Noregi 13. ágúst síðastliðinn.

Bjarni Már Gylfason, hagfræð­ingur hjá Samtökum iðnaðarins, segir í samtali við Viðskiptablað­ið að þróunin komi sér illa fyrir íslenska byggingarverktaka, verkfræðistofur, arkitekta og aðra með starfsemi í Noregi.

Með 30% af tekjunum í Noregi

Íslensk fyrirtæki með starfsemi í Noregi fylgjast vel með þróun mála, sem hefur áhrif á afkomu þeirra. „Árið 2014 vorum við með 30% af okkar tekjum frá Noregi og 40% í heild frá verkefnum erlendis. Þetta hefur veruleg áhrif,“ segir Sveinn I. Ólafsson, framkvæmdastjóri Verkís. Hann segir að vegna þróunarinnar sé orðið erfiðara að keppa við norskar verkfræðistofur um verkefni. „Norska krónan hefur farið illa með okkur,“ segir Sveinn.

Nánar er fjallað um málið í Orku & iðnaði, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .