Um 200 manns sóttu ráðstefnu Icelandic Gaming Industry (IGI) í Bláa lóninu í lok síðustu viku.

Gestir ráðstefnunnar, sem bar heitið Future is bright, komu víða að. Þar voru aðilar frá íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum, innlendum og erlendum leikjafyrirtækjum, aðilar úr menntageiranum, erlendum leikjatímaritum og svo mætti lengi telja.

IGI eru samtök sex fyrirtækja sem starfa á sviði tölvuleikja og afþreyingar og voru stofnuð fyrir ári.

Aðspurð um stöðu tölvuleikjageirans almennt segir Erla Bjarney Árnadóttir, stjórnarformaður IGI, að staða geirans hér á Íslandi sé viðunandi. Fyrirtækjum sem starfa í tölvuleikjageiranum hér á landi fari fjölgandi og flest hafi þau vaxið á síðustu árum.

„Möguleikar tölvuleikjafyrirtækja hér á landi eru til staðar þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Gjaldeyrishöftin eru okkur erfið svo dæmi sé tekið,“ segir Erla Bjarney.

„Það má á vissan hátt segja að leikjaiðnaðurinn hér á landi sé á krossgötum, þar sem möguleikarnir eru augljósir en ekki fast í hendi að ná frekari árangri. Það þarf að stuðla að jafnvægi í hagkerfinu og afnema höft til þess að iðnaðurinn geti nýtt þau tækifæri sem eru nú þegar til staðar.“

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .