Talið er að störf á vegum íslenskra hugbúnaðarfyrirtækja í leikjaiðnaði séu nú á bilinu 850 til 900. Þar af eru 500 til 550 störf hér á landi og um 350 störf erlendis, samkvæmt upplýsingum frá Erlu Bjarneyju Árnadóttur, formanni stjórnar Samtaka íslenska leikjaiðnaðarins (Icelandic Game Industry).

Vöxtur þessara fyrirtækja, þar á meðal CCP, Gogogic og Betware, hefur verið hraður. Í fyrra var áætlað að um 300 til 350 störf væru á hendi íslenskra leikjafyrirtækja hér á landi og 150 til 200 erlendis. Vöxturinn er því a.m.k. 300 störf á milli ára. Munar þar miklu um fjölmörg störf hjá CCP en lagt var upp með það í upphafi árs að fjölga störfum, m.a. vegna leikjaþróunar, um nálægt 200.