Þrátt fyrir að fjöldi nýrra leikja hafi litið dagsins ljós á þessu ári er útlit fyrir að heildarvelta á leikjamarkaði verði sú sama og hún var á síðasta ári eða 18,2 milljarðar dollara.

Sérfræðingar telja að þessi staða sé tilkomin vegna þess að spilarar haldi að sér höndum og bíði eftir nýjum leikjatölvum sem settar verða á markað á næsta og þarnæsta ári. Playstation 2 frá Sony og XBox frá Microsoft hafa verið á markaði í 3-4 ár og því var fyrirsjáanlegt að það myndi hægja á vexti um síðir. Þessi staða er á skjön við það sem aðilar á tölvuleikjamarkaði hafa átt að venjast undanfarin ár því þessi markaður hefur notið mikils vaxtar í seinni tíð. Framleiðendur leikja og búnaðar bíða því spenntir uns þetta ástand breytist sem verður eftir 1-2 ár.