Ramóna slf. er nýstofnað félag Þorsteins Guðmundssonar leikara og eiginkonu hans, Elísabetar Önnu Jónsdóttur. Félaginu er ætlað að halda um margskonar rekstur Þorsteins og nefnir hann sem dæmi uppistand og veislustjórnun, sem og önnur verkefni í leikhúsi og kvikmyndagerð. Þorsteinn hefur einnig verið í auglýsingagerð og m.a. birst á skjánum í auglýsingum Nova. „Ég á í samstarfi við Dag Hilmarsson hönnuð og við höfum verið að vinna fyrir Nova. Við virkum í raun eins og lítið auglýsingabatterí saman,“ segir Þorsteinn.

Okkar eigin Osló tók 9 ár

Nýjasta afurð Þorsteins í skemmtanaiðnaðinum er kvikmyndin Okkar eigin Osló sem nú er sýnd í kvikmyndahúsum. Þar fer Þorsteinn með eitt aðalhutverka en hann skrifaði einnig handrit myndarinnar. Alls liðu 9 ár frá því að handritsgerð hófst og þar til myndin endaði á hvíta tjaldinu. „Upphaflega skrifaði ég hana með Sigurjóni Kjartanssyni. Ég tók svo við henni og vann hana áfram.“ Þorsteinn tekur fram að það hafi þó ekki verið svo að stanslaust hafi verið unnið að myndinni í 9 ár.

Aðspurður hvað sé framundan segir Þorsteinn að nú taki við undirbúningur næstu verkefna, ásamt tilfallandi skemmtanahaldi eins og veislustjórnun og uppistand. „Ég lagði nýlega inn umsókn til Kvikmyndamiðstöðvar um handritsstyrk. Það tekur líklega einhver ár að verða að einhverju,“ segir hann í gamansömum tón. „Meðalmeðgöngutími bíómyndar er líklega um þrjú til fjögur ár.“