*

laugardagur, 31. júlí 2021
Innlent 20. nóvember 2011 12:26

Leikmönnum fækkar á fjármálamarkaði

Töluverð hagræðing hefur orðið í fjármálageiranum á árinu með samruna fjármálafyrirtækja og yfirtökum.

Ritstjórn
Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar Capital, þekkir vel til væntanlegra samstarfsmanna hjá Tindum verðbréfum, því þau unnu saman í Kaupþingi.
Haraldur Jónasson

Töluverðar breytingar hafa orðið á íslensku fjármálalandslagi það sem af er árinu. Nokkur fyrirtæki hafa helst úr lestinni, af einni eða annarri ástæðu. Eitthvað er um að ný fyrirtæki hafi komið inn á markaðinn, en þróunin er samt sem áður frekar í átt að stærri og færri fyrirtækjum og meiri hagræðingar á markaðnum. Síðustu fréttir þessu tengdar eru kaup MP banka á Júpíter rekstrarfélagi og samruni Auðar Capital og Tinda verðbréfa. Þá er verið að ganga frá samruna Byrs sparisjóðs og Íslandsbanka annars vegar og SpKef og Landsbankans hins vegar. Eins keypti MP banki fyrirtækjaráðgjöf Sögu fjárfestingarbanka.

Eins og áður segir var nýlega greint frá því að Auður Capital hefði keypt Tinda verðbréf og að fyrirtækin yrðu sameinuð undir nafni Auðar. Tindar eiga sér töluvert langa sögu en fyrirtækið var upphaflega stofnað árið 2001 undir nafninu Nordvest verðbréf. Árið 2009 tóku nýir eigendur við fyrirtækinu og breyttu nafni þess í Tinda verðbréf. Stærstu hluthafarnir eftir eigendabreytinguna eru Teton ehf. og Títan fjárfestingarfélag ehf. Stærstu eigendur þessara fyrirtækja eru þeir Vilhjálmur Þorsteinsson og Skúli Mogensen. Vilhjálmur var stjórnarmaður í Auði og verður stjórnarformaður hins sameinaða félags. „Auður er verðbréfafyrirtæki með mjög sterka eignastýringu,“ segir Vilhjálmur. „Í eignastýringunni erum við ekki að vinna fyrir stofnanafjárfesta heldur fyrir almenna sparifjáreigendur og erum að því er ég held stærst á þeim markaði, með um þrjátíu milljarða í stýringu. Fyrirtækið hefur hins vegar ekki verið með miðlun og við höfum viljað bæta við fyrirtækjaráðgjöfina hjá okkur.“ Vilhjálmur segir að Tindar hafi verið mjög sterkir í þessu tvennu, miðlun og fyrirtækjaráðgjöf. „Þá skiptir það máli að lykilfólkið í Auði og Tindum þekkist vel, en þau Kristín Pétursdóttir, forstjóri Auðar, og Hannes Frímann Hrólfsson, framkvæmdastjóri Tinda, unnu saman í Kaupþingi og þekkjast mjög vel. Það var því vitað að lykilfólkið gæti unnið vel saman og það skiptir öllu máli í starfsemi sem þessari,“ segir Vilhjálmur.

Nánar er fjallað um málið í Vuðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.